top of page
Vilborg-2.jpg

2. sæti

Vilborg M. Ástráðsdóttir

Ég heiti fullu nafni Vilborg María Ástráðsdóttir en dags daglega er ég hin eina sanna Vilborg í Skarði.

Ég er uppalin í Flóanum innan um kýr, kindur en þó aðallega hesta.  Þegar ég var tvítug urðu straumhvörf í lífi mínu þegar ég var send á afrétt að leita að kindum. Það er hverju orði sannara að ég varð eftir í Skarði og hef ekki farið þaðan síðan. 

Fyrstu störf mín í sveitinni voru hjá tveimur afar skemmtilegum vinnuveitendum, þeim Gunnari í Steinsholti þar sem ég tamdi hesta og síðan hjá Gunnari kaupmanni þar sem ég afgreiddi bensín og hamborgara á víxl (með sjálfsögðum handþvotti á milli). Stuttu síðar urðu önnur straumhvörf í lífi mínu þegar Magga í Háholti og Sigrún á Bólstað fengu mig til að vinna í leikskólanum í Ásaskóla. Börn á leikskólaaldri, þessi ungi og hispurslausi aldurshópur, hefur átt hug minn og hjarta síðan.  Í kjölfarið hóf ég nám í gamla Fósturskólanum 1998 sem á þeim tíma breyttist í háskólanám og lauk B.Ed. námi árið 2002 þá ófrísk af öðru barni okkar Sigurðar. Á þessum tíma hafði ég hafið störf við leikskólann Leikholt í Brautarholti, leyst leikskólastjórann af í barnsburðarleyfi og stuttu seinna ráðin leikskólastjóri í Leikholti og starfaði sem slík til ársins 2012. 

Á þessum tíma voru umbreytingar í skipulagi skólanna hér í sveitarfélaginu í kjölfar sameiningar gamla Gnúpverjahrepps og gamla Skeiðahrepps. Sem leikskólastjóri tók ég fullan og eðlilegan þátt í því ferli.

Á árunum 2002- 2012 tók ég einnig þátt í sveitarstjórnarpólitíkinni og þá að mestum hluta í umhverfismálum.   

Árið 2015 lauk ég M.Ed námi í náms- og kennslufræði með áherslu á list- og verkgreinakennslu og hóf störf um það sumar í leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi þar sem ég starfaði í 5 ár. 

Í dag er ég sjálfstætt starfandi, rek silkiprents-verkstæði og sauma kjóla  undir merkjum Híalín en starfa einnig í fyrirtæki okkar Sigurðar, Húmfaxa ehf,  við teikningar og einnig hönnun húsa.

Ég er harðgift Sigurði Unnari Sigurðssyni og við eigum fjögur börn; þau Ástráð (2000), Sigurlinn (2002), Magnús (2007) og Hrafnkel (2009).  Sigurður er með Meistarapróf í trésmíði og Msc í byggingarverkfræði með áherslu á jarðskjálftaverkfræði.


Hvers vegna býð ég mig fram í sveitarstjórnarkosningum ?   Ég tel mig hafa orðið nokkra þekkingu á skólamálum og því rekstrarumhverfi sem skólar búa við.   Hef sérstakann áhuga á menntarannsóknum og legg mig fram um að kynna mér áhugaverðar framfarir á því sviði.

Kvaðir og skyldur sveitarfélaga eru sífellt að aukast án þess að tekjur fylgi sjálfkrafa með.  Það getur verið vandratað að reka sveitarfélag svo vel sé en í samstarfi við öfluga liðsheild Samvinnulistans þá legg ég í þetta verkefni og tel mig hafa nokkuð til brunns að bera til að efla og bæta okkar góða sveitarfélag.


Skemmtileg og algjörlega gagnslaus staðreynd um sjálfa mig – ég er bara komin með eitt grátt hár eftir 27 ára búsetu hér í sveitarfélaginu en kallinn löngu orðinn sköllóttur.

2. sæti: Team

©2022 samvinnulistinn.

bottom of page