SAMVINNULISTINN
X-L

3. sæti
Bjarni H. Ásbjörnsson
Ég heiti Bjarni H. Ásbjörnsson og skipa 3ja sæti á Samvinnulistanum. Þegar ég rak höfuðið inn um dyrnar á fundi þar sem íbúar í sveitarfélaginu hittust til að ræða tilvonandi kosningar og stöðuna í sveitarfélaginu, komst ég ekki hjá því að hrífast með þeim fyrir bjartsýni, framsýni og mikla trú á framtíð samfélagsins í sveitarfélaginu. Ég ákvað því að gefa kost á mér í 3ja sæti listans og hvet íbúa til þess að leggja Samvinnulistanum lið til þess að ég geti lagt mín lóð á vogarskálarnar á næsta kjörtímabili til að byggja upp farsælt og sterkt samfélag. Mig langar að kynna mig fyrir sveitungunum og hvers vegna ég gef kost á mér í framboð til sveitarstjórnar.
Ég er 59 ára, fæddur í maí árið 1962. Er alinn upp í Reykjavík, en rætur mínar má rekja vestur á Snæfjallaströnd, í Hafnarfjörð og austur í Meðalland. Ég er kvæntur Lilju Össurardóttur, fötlunarfræðingi. Saman eigum við þrjá syni og tvö barnabörn.
Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri í eigin fyrirtæki frá árinu 2004. Helstu verkefni mín hafa verið í ráðgjöf og þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni, stefnumótunar, stjórnunar og rekstrarráðgjafar. Hin síðari misseri hef ég búið til og leiðbeint á allnokkrum námskeiðum sem öll tengjast upplýsingatækni á einn eða annan hátt. Auk þessa leiðsegi ég ferðamönnum um landið og skipulegg ferðalög. Ekki má gleyma því að við hjónin sinnum hrossarækt í gegnum fyrirtæki mitt.
Ég lauk stúdentsprófi frá framhaldsdeild Samvinnuskólans árið 1987. Árið 2004 útskrifaðist ég sem tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og lauk svo meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands árið 2011. Árið 2017 útskrifaðist ég sem fagmenntaður leiðsögumaður frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Ég hef, í gegnum tíðina, ávalt verið í störfum sem kalla á það að hlusta á fólk með mismunandi áherslur og hugmyndir að lausnum á vandamálum og nýjum verkefnum. Mér hefur borið gæfa til þess að geta unnið með ólíku fólki til að finna bestu leiðir að þeim markmiðum sem sett eru upp. Mér þykir ákaflega gaman að kynna land og þjóð fyrir erlendum gestum og varpa ljósi á breytingar á íslensku samfélagi í gegnum aldirnar. Breytingar sem við erum kannski ekki að velta fyrir okkur dags, daglega. En breytingarnar gerast sífellt hraðar og hafa mun fyrr áhrif á okkar daglega líf, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin í Árnessýslu, þar sem megin atvinnustarfsemi byggir á landbúnaði og garðyrkju, séu of smá og hvert um sig ekki nægjanlega öflugt til þess að sinna mörgum þeim skyldum sem þeim ber, á sem bestan hátt í samfélagi dagsins í dag. Þróun í atvinnuháttum hefur breyst verulega mikið á þeim tuttugu árum síðan Skeiða- og Gnúpverjahreppur var stofnaður. Samfélagið hefur breyst og mörg málefni á borði sveitarstjórna eru þess eðlis að erfitt er fyrir lítil sveitarfélög að gera þeim nægjanlega góð skil til hagsbóta fyrir íbúana. Samstarf sveitarfélaganna í Árnessýslu er auðvitað með ágætum og hefur byggst upp af ríkri þörf. En ef stjórnsýslueiningin sem kemur að þessum samrekstri er stærri og aflmeiri þá eru auknar líkur á því að bæta megi þjónustuna og hagræða enn frekar í rekstrinum.
Ég ætla því að leggja mitt af mörkum að ræða við sveitarfélögin í næsta nágrenni okkar um kosti og galla þess að sameinast á sem víðustum grunni. Við verðum að horfast í augu við þá byggðaþróun sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi, en jafnframt að mæta þeim tækifærum sem standa okkur til boða í dag með aukinni eftirspurn eftir búsetu í rólegu og kyrrlátu umhverfi, hæfilega nærri höfuðborgarsvæðinu til þess að stunda þar dagleg störf.
Um nokkurt skeið hefur mér verið hugleikið hvernig bæta megi stjórnsýsluna í sveitarfélaginu. Það er ekkert launungarmál að hún gæti verið betri. Málefnin sem fjalla þarf um eru af margvíslegum toga og ólík. Sem dæmi má nefna að sveitarfélögum ber að setja fram rúmlega 30 stefnur í mismunandi málaflokkum. Það má líka skerpa á afgreiðslu erinda frá íbúunum. Stefnumótun er mitt sérsvið og ég nýt þess að búa til, skoða og bæta ferla hvers konar. Þar get ég komið að gagni fái ég til þess stuðning.
Við hjónin hófum hrossarækt í Kílhrauni árið 2004 og flytjum svo búferlum árið 2010. Við höfum tekið þátt í ýmsum félagsstörfum í sveitarfélaginu og horft með gestsaugum á samfélagið fyrstu árin okkar hér. Okkur líður vel í þessari sveit þó við séum ekki alltaf sammála allri umræðu sem á sér stað meðal íbúa. En það er auðvitað hluti þess að búa í samfélagi manna. Hver hefur sína skoðun og hefur fullkominn rétt til þess. Heilbrigðar umræður og rökræður hvers konar eru leiðir til þess að leiða mál til lykta.
Þó ég stundi hrossarækt í frístundum er ég að sama skapi ekki sá gleggsti í hestamennskunni. Sem dæmi má nefna að eitt sinn er við vorum nýbúin að kaupa okkur jarpan reiðhest, reið ég honum í Reykjarétt og fylgdi svo fjársafni heim í Björnskot. Þar var vel tekið á móti fólki, kjötsúpa og annar viðurgjörningur góður. Þegar komið var að heimferð brá svo við að jarpur minn var hvergi sjáanlegur. Ég vissi af því að Flóamenn höfðu lagt upp nokkru áður og með góðri hjálp náði ég að aka þá uppi við afleggjarann að Kílhrauni. Þar hitti ég fyrir mann á jörpum hesti og spurði í sakleysi mínu hvort það gæti nokkuð verið að hann hafi farið hestavillt í Björnskoti. Sá brást hinn versti við og spurði mig á móti hvort ég héldi að hann þekkti ekki hestinn sem hann hafi riðið í leitum í allnokkra daga. Ég gat auðvitað ekki neitað því og fór til baka í Björnskot til þess að segja farir mínar ekki sléttar af Flóamönnum. Geng þó aðeins inn á túnið þar sem hestar höfðu áð, áður en ég hitti húsráðendur. Stendur þá ekki jarpur hestur upp, á bak við hæð, eftir hæfilega hvíld. Var þar þá kominn hinn nýi jarpi reiðhestur. Síðan þá merki ég hestana mína með lituðu límbandi í tagli eða faxi þegar ég ríð í réttir.