top of page

STEFNUSKRÁ

IMG_2046.jpg
Dynkur_Þjórsá.jpg
IMG_1467.jpg
Stefnuskrá: Causes

SAMEINING SVEITARFÉLAGA

Eitt af fyrstu verkefnum okkar verður að setja á fót vinnuhóp sem mun fara í þá vinnu að athuga hvað sameining við önnur sveitarfélög þýðir fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Við munum hafa frumkvæði að viðræðum við nágrannasveitarfélög okkar til að kanna kosti og galla sameiningar í stærra eða smærra samhengi.

Ef viðræður leiða til vilja sveitarfélaga um áframhaldandi vinnu við sameiningarferli verða íbúar upplýstir um gang mála. Íbúar munu svo hafa lokaorð í kosningu á kjörtímabilinu.

ATVINNA, SAMGÖNGUR OG BÚSETA

Forsenda fyrir atvinnuuppbyggingu er framboð af íbúðarhúsnæði. Við þurfum að fara í skipulagsvinnu sem býr til jarðveg fyrir fólk og fyrirtæki að setjast að í sveitinni. Í langan tíma hefur svo til ekkert framboð af íbúðarhúsnæði verið í sveitarfélaginu. Þær örfáu íbúðir sem hafa verið byggðar hafa selst hratt. Við ætlum að móta skýra stefnu um uppbyggingu til framtíðar með fjölbreyttu úrvali lóða, bæði á vegum sveitarfélagsins og annarra landeigenda.


Við viljum tryggja nægt framboð af íbúða- og atvinnulóðum í sveitarfélaginu og koma þeim á framfæri til þeirra sem hafa áhuga á að flytja búsetu sína til okkar.

Við munum beita auknum þrýstingi á Vegagerðina til þess að bæta ófremdarástand í vegamálum í sveitarfélaginu.

SKÓLAMÁL

Eitt af mikilvægustu hlutverkum sveitarfélaga er að halda úti góðu skólastarfi. Þjónusta skóla þarf að taka mið af þörfum allra barna í sveitarfélaginu. Við viljum að öllum börnum verði gert kleift að stunda frístundir og íþróttaiðkun í beinu framhaldi af skólastarfi. Við skipulag skólastarfs þarf að taka tillit til þess að báðir foreldrar séu í fullu starfi og má það ekki koma niður á möguleikum barna til frístunda- og íþróttastarfs.


Leikskólinn okkar þarf að gera foreldrum kleift að stunda fulla vinnu. Þar sem við búum í dreifbýli þurfa margir foreldrar að sækja vinnu um langan veg. Þess vegna þarf leikskólinn að bjóða upp á opnun frá 7:30 – 16:30. Við stefnum á að leikskólinn veiti þessa þjónustu.

UMHVERFISMÁL
Við höfum mikla sérstöðu hvað varðar framlag sveitarinnar til grænnar endurnýjanlegar orku sem allir íslendingar njóta á hverjum degi. Við þurfum að móta aðgerðir sem setja umhverfisvernd í forgang. Við ætlum að halda áfram þeirri vegferð að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að vera í farabroddi í umhverfismálum. Ein leið til þess er að stofna samstarfsverkefni sveitarfélaganna á svipuðum nótum og heilsueflandi uppsveitir til að efla og uppfræða um umhverfismál.


Við höfum hug á því að efla enn frekar Grænfánaverkefni grunn- og leikskóla til þess að styrkja grasrótina og leiðbeina börnum að tileinka sér hugmyndafræði umhverfismála í dagsins önn.


Umhverfismál eru á dagskrá í öllum okkar daglegu venjum. Hvort við séum nýtin og útsjónarsöm í rekstri, hvernig ferðamáta við veljum okkur, hvernig við getum kolefnisjafnað athafnir okkar, hvort við hvetjum til og stuðlum að lífrænum eða vistvænum búsháttum, hvernig við hvetjum eða stuðlum að uppgræðslu lands sem þarf á því að halda.


Við viljum fjölga nefndarmönnum í umhverfisnefnd til að fjalla um þau verkefni sem liggja fyrir í sveitarfélaginu og munu koma inn á borð sveitarstjórnar í framtíðinni.
Við viljum vinna að því að finna raunhæfar úrlausnir í flokkun og förgun sorps. Byggja á þeim góða grunni sem hefur verið lagður, gefa í og bæta enn frekar. Við munum leita í smiðju þeirra sveitarfélaga sem standa framarlega í þessum málaflokki.

HVAMMSVIRKJUN

Miklar líkur eru á því að beiðni um framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar verði eitt af fyrstu verkefnum nýrrar sveitastjórnar. Ef að því verður er mikilvægt að við tryggjum  hagsmuni sveitarfélagsins í þessu stóra verkefni. Þannig getum við lagt grunn að framtíðaruppbyggingu í atvinnu- og íbúamálum.

UPPLÝSINGAGJÖF TIL ÍBÚA

Það er afar mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins að geta gengið að nauðsynlegum upplýsingum vísum, um velferðar- og félagsmál þegar þeim hentar best. Jafnframt að vera upplýst um margvíslega starfsemi sveitarfélagsins. Með því má forðast misskilning, en einnig auka rýni til gagns frá íbúum til sveitarstjórnar. Við ætlum að bæta upplýsingagjöf til íbúa. Vefsíða sveitarfélagsins verður uppfærð þannig að hún auðveldi íbúum að nálgast allar upplýsingar á skýran hátt. Gaukurinn verður endurvakinn á prentuðu formi og gefinn út mánaðarlega til allra íbúa. Hægt verður að gerast áskrifandi að Gauknum og fá hann sendan hvert á land sem er.

SVEITARSTJÓRI

Haraldur er oddviti Samvinnulistans og mun starfa sem sveitarstjóri fái hann umboð kjósenda til þess. Við leggjum upp með að starfandi oddviti verði sveitarstjóri. Það þýðir að við spörum laun oddvita fyrir utan lögbundna þóknun fyrir setu í sveitarstjórn.


REKSTUR SVEITARFÉLAGSINS
Sveitarfélagið okkar nýtur þeirra forréttinda að stórt orkufyrirtæki greiðir drjúgan hluta af fasteignagjöldum sem lögð eru á atvinnuhúsnæði. Vegna þess höfum við úr umtalsvert meiri fjármunum að spila heldur en mörg önnur sveitarfélög af svipaðri stærð. Okkur ber skylda til að nýta fjármagnið á sem bestan hátt til hagsbóta fyrir íbúana.


Skuldir sveitarfélagsins hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár. Árið 2014 var skuldahlutfallið 23% en árið 2020 var það orðið 52,2%. Nauðsynlegt er að ná utan um reksturinn og stöðva frekari skuldasöfnun. Með öguðum rekstri er hægt að ná góðum fjárhagslegum ávinningi á mörgum sviðum. Reglulegur rekstur sveitarfèlagsins ætti ekki að þurfa að auka skuldasöfnun sveitarsjóðs. 


STJÓRNSÝSLA

Sterk stjórnun sveitarfélags byggir meðal annars á góðri stjórnsýslu. Mikilvægt er að nefndir sveitarfélagsins fái verkefni til að fjalla um og gefa sveitarstjórn faglegt álit sitt. Okkur þykir því mikilvægt að í nefndir sé valið fagfólk eða fólk með sérþekkingu sem hefur áhuga á málefninu. Þannig nýtum við mannauð og þekkingu íbúa og gefum þeim tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórnar.

Stefnuskrá: About

©2022 samvinnulistinn.

bottom of page